Sunday, May 25, 2008

Sumarmús

Atli Dagur er búinn að hafa nóg fyrir stafni síðustu vikur. Hann skellti á sundnámskeið og fannst það svakalega gaman. Tvisvar í viku mætir hann í sund ásamt foreldrunum. Þar kafar hann og dýfir sér af bakkanum eins og hann hafi aldrei gert neitt annað.
Nú er mánuður síðan hann byrjaði að borða og gekk það fremur hægt í byrjun en áhuginn er að aukast eftir að ávextir og grænmeti voru kynnt til sögunnar. Hann raðar fæðutegundum eftir vinsældum í eftirfarandi röð: 1. Gulrætur 2. Epli 3. Perur. Síðan koma aðrar tegundir af mauki og grautur rekur lestina, honum finnst grautur ekkert spes. Lýsi bragðast hins vegar mjög vel! Engar tennur eru komnar og virðast ekki á leiðinni...
Hann tekur lífinu með ró og sefur áfram allar nætur, foreldrum sínum til mikillar ánægju. Hins vegar finnst honum ágætt að taka daginn snemma og foreldrunum þykir stundum nóg um þegar hann vaknar eldsprækur klukkan 6 að morgni enda góðu vön.
Atli Dagur er söngelskur og þykir mjög skemmtilegt þegar pabbi tekur fram gítarinn og spilar nokkur lög. Efst á vinsældalistanum er Dvel ég í draumahöll... úr Dýrunum í Hálsaskógi. Þá brosir hann út að eyrum. Annað sem kallar fram bros er að sjá fólk frussa og hann skellir jafnvel upp úr ef vel tekst til. Hann æfir sig mikið í því sjálfur.
Á dögunum fór hann í myndatöku fyrir vegabréfið sitt og þá var hann einmitt mjög upptekinn af því að frussa og ekki náðist mynd öðru vísi. Eftir dálítið margar tilraunir var ákveðið að Atli Dagur yrði þá bara að vera frussandi á myndinni í vegabréfinu. Þetta vegabréf mun hann nota til 5 ára aldurs.
Nú eru bara nokkrir dagar þar til Atli Dagur skellir sér til Ítalíu með viðkomu í Kaupmannahöfn. Hann tók smá forskot á sæluna í dag þegar hann fékk að sitja úti í grasi í fyrsta skipti og smellti mamma nokkrum myndum af honum við það tækifæri.