Friday, June 20, 2008

Bello bambino!!!



Þá er Atli Dagur kominn heim úr sumarleyfinu. Búinn að ferðast með foreldrum sínum um allt Toscana hérað með viðkomu í Kaupmannahöfn. Foreldrarnir vissu ekki við hverju ætti að búast í fyrstu flugferðinni en Atli Dagur lét sér fátt um finnast og lagði sig bara öðrum farþegum til mikils léttis. Væntanleg sól og hiti hafði einnig valdið foreldrunum áhyggjum en það reynist ástæðulaust þar sem veðrið var hið heppilegasta fyrir lítinn snáða og flíspeysan var höfð uppi við flesta daga. Glókollurinn vakti mikla athygli hjá Ítölunum sem kölluðu upp yfir sig ,,bello bambino" þegar þeir sáu ljósu lokkana. Þeir eru barnelskir með eindæmum og börnin í ferðinni voru alls staðar velkomin. Setti hópurinn hvern veitingastaðinn á fætur öðrum á annan endann með fjórum litfríðum prökkurum sem sumir hverjir voru farnir að tala ítölsku og dansa ballett fyrir viðstadda. Atli hafði mjög gaman af að fylgjast með Nínu ballerínu, Eyjólfi riddara/sjóræningja og Gesti grallara og mun búa að þeirri reynslu. Hann hitti einnig vin sinn Dag Sölva í Siena og Heiðrún Sunna kíkti í heimsókn.
Að lokinni skemmtilegri dvöl í Toscana var haldið til Kaupmannahafnar þar sem Atli heimsótti ættingja sína, afa og ömmu og Jón og Bryndísi. Foreldrarnir gátu þá loksins sofið út. Atli hafði samviskusamlega skipt yfir á ítalskan tíma án þess að foreldrarnir gerðu slíkt hið sama og tók daginn fullsnemma en þá kom amma Sigrún þeim til bjargar.
Nú er Atli Dagur kominn heim í sólina og búinn að koma sér á íslenskan tíma eftir einn erfiðan morgun þar sem farið var á fætur kl. 04. Tími til kominn að fara að nota sólvörnina sem búin er að vera í ferðatöskunni síðastliðnar vikur!