Thursday, December 25, 2008

Tuesday, September 30, 2008

Friday, June 20, 2008

Bello bambino!!!



Þá er Atli Dagur kominn heim úr sumarleyfinu. Búinn að ferðast með foreldrum sínum um allt Toscana hérað með viðkomu í Kaupmannahöfn. Foreldrarnir vissu ekki við hverju ætti að búast í fyrstu flugferðinni en Atli Dagur lét sér fátt um finnast og lagði sig bara öðrum farþegum til mikils léttis. Væntanleg sól og hiti hafði einnig valdið foreldrunum áhyggjum en það reynist ástæðulaust þar sem veðrið var hið heppilegasta fyrir lítinn snáða og flíspeysan var höfð uppi við flesta daga. Glókollurinn vakti mikla athygli hjá Ítölunum sem kölluðu upp yfir sig ,,bello bambino" þegar þeir sáu ljósu lokkana. Þeir eru barnelskir með eindæmum og börnin í ferðinni voru alls staðar velkomin. Setti hópurinn hvern veitingastaðinn á fætur öðrum á annan endann með fjórum litfríðum prökkurum sem sumir hverjir voru farnir að tala ítölsku og dansa ballett fyrir viðstadda. Atli hafði mjög gaman af að fylgjast með Nínu ballerínu, Eyjólfi riddara/sjóræningja og Gesti grallara og mun búa að þeirri reynslu. Hann hitti einnig vin sinn Dag Sölva í Siena og Heiðrún Sunna kíkti í heimsókn.
Að lokinni skemmtilegri dvöl í Toscana var haldið til Kaupmannahafnar þar sem Atli heimsótti ættingja sína, afa og ömmu og Jón og Bryndísi. Foreldrarnir gátu þá loksins sofið út. Atli hafði samviskusamlega skipt yfir á ítalskan tíma án þess að foreldrarnir gerðu slíkt hið sama og tók daginn fullsnemma en þá kom amma Sigrún þeim til bjargar.
Nú er Atli Dagur kominn heim í sólina og búinn að koma sér á íslenskan tíma eftir einn erfiðan morgun þar sem farið var á fætur kl. 04. Tími til kominn að fara að nota sólvörnina sem búin er að vera í ferðatöskunni síðastliðnar vikur!

Sunday, May 25, 2008

Sumarmús

Atli Dagur er búinn að hafa nóg fyrir stafni síðustu vikur. Hann skellti á sundnámskeið og fannst það svakalega gaman. Tvisvar í viku mætir hann í sund ásamt foreldrunum. Þar kafar hann og dýfir sér af bakkanum eins og hann hafi aldrei gert neitt annað.
Nú er mánuður síðan hann byrjaði að borða og gekk það fremur hægt í byrjun en áhuginn er að aukast eftir að ávextir og grænmeti voru kynnt til sögunnar. Hann raðar fæðutegundum eftir vinsældum í eftirfarandi röð: 1. Gulrætur 2. Epli 3. Perur. Síðan koma aðrar tegundir af mauki og grautur rekur lestina, honum finnst grautur ekkert spes. Lýsi bragðast hins vegar mjög vel! Engar tennur eru komnar og virðast ekki á leiðinni...
Hann tekur lífinu með ró og sefur áfram allar nætur, foreldrum sínum til mikillar ánægju. Hins vegar finnst honum ágætt að taka daginn snemma og foreldrunum þykir stundum nóg um þegar hann vaknar eldsprækur klukkan 6 að morgni enda góðu vön.
Atli Dagur er söngelskur og þykir mjög skemmtilegt þegar pabbi tekur fram gítarinn og spilar nokkur lög. Efst á vinsældalistanum er Dvel ég í draumahöll... úr Dýrunum í Hálsaskógi. Þá brosir hann út að eyrum. Annað sem kallar fram bros er að sjá fólk frussa og hann skellir jafnvel upp úr ef vel tekst til. Hann æfir sig mikið í því sjálfur.
Á dögunum fór hann í myndatöku fyrir vegabréfið sitt og þá var hann einmitt mjög upptekinn af því að frussa og ekki náðist mynd öðru vísi. Eftir dálítið margar tilraunir var ákveðið að Atli Dagur yrði þá bara að vera frussandi á myndinni í vegabréfinu. Þetta vegabréf mun hann nota til 5 ára aldurs.
Nú eru bara nokkrir dagar þar til Atli Dagur skellir sér til Ítalíu með viðkomu í Kaupmannahöfn. Hann tók smá forskot á sæluna í dag þegar hann fékk að sitja úti í grasi í fyrsta skipti og smellti mamma nokkrum myndum af honum við það tækifæri.

Friday, April 25, 2008

Fyrsti grauturinn

Þá er Atli Dagur bara að verða 6 mánaða í næstu viku. Stefnan hafði verið tekin á sundnám en það varð að bíða vegna þess að gaurinn fékk slæmt kvef og síðan eyrnabólgu. Nú er hann allur að hressast og kemst vonandi í nokkra sundtíma áður en fjölskyldan leggur land undir fót.
Þar sem förinni er heitið til Ítalíu, sem er einna þekktust fyrir mikla matarmenningu, þýðir ekkert annað en að auka fjölbreytnina í eigin matarvenjum. Hann fékk því að smakka graut nokkrum dögum fyrir 6 mánaða afmælið. Það vakti nú enga sérstaka lukku en smakkast kannski betur næst.
Hann hefur líka gert nokkrar merkar uppgötvanir síðustu vikur; hann er með litlar sætar táslur sem gaman er að grípa í, hann getur framkallað hátíðnihljóð og alls kyns önnur skemmtileg hljóð og síðan getur verið ansi gaman að skoða auglýsingabæklinga og tæta þá aðeins niður:)

Monday, April 7, 2008

Grallari

Jæjúra! Allt gott að frétta af kappanum. Hann dafnar vel og er orðinn hinn mesti sprelligosi. Skemmtilegast af öllu er að grínast með mömmu sinni og pabba sínum og láta purra hálsakotið. Hann fylgist vel með öllu og forvitnin er stundum svo mikil að hann má ekki vera að því að drekka, hann þarf svo mikið að horfa í kringum sig.
Hann fer yfirleitt daglega út í langan túr í vagninum og vill sitja uppi og horfa út. Síðan er ósköp notalegt að detta út af og fá sér góðan lúr. Hann er búinn að eiga í mesta basli með hárið síðustu vikurnar þar sem fæðingarhárið fór að detta af í hliðunum. Hann fékk þannig hanakamp sem stóð út í loftið. Þetta er nú allt saman að jafna sig núna þar sem komið er mikið af nýju hári.
Hann upplifði sína fyrstu páska og fékk tvö páskaegg en fékk auðvitað ekki að smakka þau en mamma og pabbi fengu hins vegar smá smakk :)
Í lok mars fór hann að æfa sig að drekka vatn úr stútkönnu til að undirbúa sig þar sem hann fær að smakka mat í fyrsta skipti eftir nokkrar vikur. Hann þarf nú dálitla aðstoð við það en er fullur áhuga.

Saturday, March 1, 2008

Febrúar liðinn...

...og vorið nálgast. Mamma og pabbi búin að bóka ferð til Ítalíu, nánar tiltekið til Toscana héraðsins. Þar ætlar Atli Dagur að skemmta sér með Nínu, Eyjólfi og Gesti á meðan þau gömlu gæða sér á pecorino og chianti í góðra vina hópi. Síðan verður rúsínan í pylsuendanum að hitta ömmu, afa, Jón og Bryndísi í Köben.

Núna er Atli Dagur farinn að velta sér af maganum og á. Hann er einnig að æfa sig í því að sitja í Bumbo stólnum sem vinkonur mömmu gáfu honum. Á sama tima ákvað hann loksins að ganga í barndóm og taka snuðið í sátt. Þetta hefur reynst hið mesta hjálpartæki fyrir svefninn í vagninum og nú er orðið virkilega huggulegt að liggja í honum á meðan mamma og stundum pabbi arka um götur bæjarins.

Áfram leyfir hann mömmu sinni og pabba að sofa á nóttunni en er hættur að nenna að sofa til hádegis. Hann hefur ekki tíma fyrir svoleiðis hangs lengur.

Sunday, January 27, 2008

Ég heiti Atli Dagur


Jæja, þá er kappinn að verða 3 mánaða gamall og ánægður með lífið og tilveruna. Hann fékk þetta fína nafn í lok ársins, Atli Dagur, sem merkir skv. rannsóknum foreldra "Hinn litli bjarti faðir". Fyrra nafnið var efst á lista í hugmyndabanka foreldra frá fyrstu dögum meðgöngu en seinna nafnið var valið rétt eftir fæðingu.

Hann er farinn að brosa og hlæja og spjalla um alla heima og geima. Sefur eins og grjót frá miðnætti til hádegis en á pínulítið erfitt ennþá með að sofna sjálfur og lítt hrifinn af ferðalögum. Mamma og pabbi eru því búin að fá góða æfingu í söng vögguvísna og tilheyrandi ruggi og róli.

Nú eru komnar nýjar myndir sem teknar voru í lok desember og byrjun janúar. Endilega kvittið í gestabókina.