Saturday, November 24, 2007

Meðgangan


Meðgangan gekk eins og í sögu og varði í sléttar 39 vikur. Í byrjun var smá ógleði hjá mömmunni sem stigmagnaðist með hverri vikunni sem leið þangað til á fjórða mánuði. Þá skánuðu hlutirnir aðeins. Á þessum fjórum mánuðum var mamman varla húsum hæf og flest sem á vegi hennar varð olli meiri ógleði. Fljótlega áttaði hún sig á því að þessu mátti að hluta til halda niðri með saltlakkrís og jarðaberjum og þannig náði hún að halda andliti þessa fjóra mánuði.


Á fimmta mánuði ákváðu foreldrarnir með stuttum fyrirvara að skella sér í stutta síðbúna brúðkaupsferð til Ítalíu nánar tiltekið Bibione sem er lítill og kósí sólarstrandarbær við Adríahafið. Ferðin heppnaðist einstaklega vel og komu verðandi foreldrar til baka með fullhlaðin batterí.
Við tók sumarið heima á Íslandi sem reyndist eitt af því sólríkara sem menn muna og var hver einasta frímínúta nýtt til sólbaða, hjólreiðatúra og lautarferða.
Strax í upphafi meðgöngu hófst hreiðurgerð sem endaði með mestu stórframkvæmdum sem foreldrarnir munu sennilega nokkurn tíma fara útí. Veggir voru slegnir niður, innréttingar rifnar af veggjum og flísar brotnar af gólfi og veggjum með tilheyrandi endurbótum. Erfitt reyndist að fá iðnaðarmenn til starfa og á endanum voru foreldrar búnnir að gera meirihlutan sjálf með mikilli hjálp fjölskyldu og góðra vina. Upphafleg tímaáætlun gerði ráð fyrir lokafrágangi í lok sumars en dróst fram í lok október.


Þegar lokafrágangur var eftir í eldhúsinu lét litli snáðinn ekki bíða lengur eftir sér heldur ákvað að nú væri nóg komið og mætti á svæðið.


Hann var nú heldur sneggri að hlutunum en foreldrarnir. Vatnið fór snemma að morgni og mamma fór að fá verki 4-5 tímum síðar og þá var haldið á fæðingardeildina. Hann var síðan fæddur tveimur og hálfum tíma eftir að þangað var komið. Hann kom í heiminn öskrandi með mikið ljóst hár og var 3820 gr. og 51 cm.